Ögmundur Pálsson
Ögmundur Pálsson (d. 13. júlí (?) 1541) var biskup í Skálholti frá 1521 til 1541 og var síðasti kaþólski biskupinn þar, en áður prestur, skipstjóri og síðan ábóti í Viðeyjarklaustri.
Ögmundur var sonur Páls Guðmundssonar og Margrétar Ögmundsdóttur, sem bjuggu „fyrir vestan“, eins og segir í heimildum. Móðir hans var dóttir Ögmundar, sonar Eyjólfs mókolls Halldórssonar í Haukadal í Dýrafirði. Hálfbróðir Ögmundar var Eyjólfur mókollur Magnússon, faðír Magnúsar Eyjólfssonar Skálholtsbiskups og Ingibjargar, móður Eyjólfs mókolls Gíslasonar í Haga á Barðaströnd.
Ögmundur stundaði nám í Englandi og á Niðurlöndum. Hann varð prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð og prófastur í Rangárþingi 1504 og hélt þeim embættum til 1515 er hann varð ábóti í Viðey. Hann var jafnframt skipherra á Þorlákssúðinni, skipi Skálholtsstaðar. Þegar Árni Snæbjarnarson ábóti í Viðey dó 1515 varð Ögmundur ábóti þar. Þau fjögur ár sem hann gegndi ábótastarfinu auðgaði hann klaustrið að jörðum; hann keypti jarðir, fékk klaustrinu dæmdar jarðeignir og gerði einnig próventusamninga sem færðu því jarðir og aðrar eignir.
Árið 1518 bar það til í Viðey að Erlendur Þorvarðarson frá Strönd í Selvogi, sveinn og systursonur Stefáns Jónssonar biskups, vó mág sinn, Orm Einarsson í Saurbæ á Kjalarnesi, en þeir höfðu átt í deilum um heimanmund Ragnheiðar konu Orms, systur Erlendar. Talið er að þessi atburður hafi átt þátt í að Ögmundur varð biskup; Stefán hafi viljað friðmælast fyrir hönd systursonar síns og fengið stuðning Ögmundar gegn því að styðja hann sem eftirmann sinn. Stefán dó snemma um veturinn og var Ögmundur kjörinn biskupsefni snemma árs 1519. Eftirmaður hans í ábótaembættinu var Helgi Jónsson, prestur í Hvammi í Norðurárdal.
Ögmundur fór utan 1520 til að fá biskupvígslu en var ekki vígður fyrr en 1521 í Niðarósi. Kom hann svo aftur heim 1522. Hann var hirðstjóri yfir Skálholtsbiskupsdæmi og rak bú að Krossi um skeið.
Ögmundur lét af biskupsembætti 1540 nema að nafninu til, þá líklega kominn á áttræðisaldur, eftir að hafa sjálfur valið Gissur Einarsson sem eftirmann sinn. Hann fluttist þá að Haukadal í Biskupstungum og átti þar heima síðan. Christoffer Huitfeldt, sendimaður Danakonungs, handtók Ögmund á heimili Ásdísar systur hans á Hjalla í Ölfusi 2. júní 1541. Sendimenn Christoffers tóku biskup, sem þá var orðinn blindur, og báru hann út fáklæddan. Hétu þeir honum frelsi ef hann léti af hendi allar eigur sínar, þar á meðal 50 jarðir og offjár í silfri og ýmsum gersemum. Er hann hafði samþykkt þetta, svikust þeir um að láta hann lausan, en hirtu eigur hans og fluttu hann nauðugan út á skip. Hann var fluttur áleiðis til Danmerkur, en andaðist á leiðinni.
- „Ögmundi er þannig lýst að hann væri mikill vexti, hár og þrekinn, gulur á hár, kringluleitur í andliti, fagureygur og smáeygur. Fyrirmannlegur og höfðinglegur og bauð af sér góðan þokka, skörungur mikill og framkvæmdasamur, ráðríkur og ágjarn, afarmenni að burðum og harðfengur, stórorður, reiðigjarn og siðvandur.“
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Viðeyjarklaustur. Sunnudagsblað Tímans, 23. júlí 1967“.
- „Um klaustrin á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
Fyrirrennari: Stefán Jónsson |
|
Eftirmaður: Gissur Einarsson |